Greinasafn fyrir merki: android

Skyldleikur

Nú á vormánuðum var efnt til keppni um Íslendingaapp meðal háskólanema og þó ég hefði lítinn tíma aflögu var það nokkuð lokkandi að skrá sig til keppni þar sem ég hafði tekið upp þráðinn í tölvunarfræðináminu með stefnu á útskrift um vorið og var því skráður við Háskóla Íslands.  Helst langaði mig að útfæra lista yfir vinsælustu nöfn í ætt viðkomandi með það í huga að tengja þann eiginleika við Nefnu, smáforrit fyrir íslensk mannanöfn sem ég vann sem lokaverkefni til B.Sc. gráðu.  Þessa hugmynd nefndi ég við fulltrúa keppninnar og nú hefur verið útfærður listi yfir vinsælustu nöfnin í vefviðmóti Íslendingabókar.

Í tæknilegum forsendum keppninnar var lagt upp með að lausnirnar yrðu útfærðar fyrir Android stýrikerfið sérstaklega.  Undanfarið hef ég kafað nokkuð í iOS forritun og útfærði þjónustuapp Símans fyrir það stýrikerfi og einnig Nefnuna.  Svo ég var ekki tilbúinn til að gefa mér tíma í að kafa í native Android forritun en með langan bakgrunn í vefforritun með JavaScript / HTML / CSS, sem má nota til að útfæra smáforrit, ákvað ég að senda fyrirspurn á keppnisstjórn um hvort mætti senda inn lausnir sem byggðu á slíkri cross-platform veftækni og úr varð að slíkar lausnir voru samþykktar og bætt við keppnisskilmálana.  Þá ákvað ég að slá til og skráði mig til keppni.  Keppnisstjórn lagði áherslu á að í hverju liði væru allt í senn tæknimenn, útlitshönnuðir og markaðsmenn.  Ég skráði mig sem einstakling og var skipað í lið með Einari Jóni Kjartanssyni úr Listaháskóla Íslands og Hlín Leifsdóttur úr HÍ.

Eftir setningu keppninnar sat ég við eldhúsborðið heima og velti fyrir mér möguleikanum á að gera einhverskonar leik byggðan á Íslendingabók þar sem ég stefni á nám í leikjagerð ásamt Eddu Láru.  Þó ég hafi hug á þessu námi þá er ég lítill leikjaspilari og hef takmarkaða reynslu af leikjaforritun en finnst þetta skemmtilegt viðfangsefni og við Edda Lára höfum meðal annars áhuga á að sameina bakgrunna okkar í að útbúa skemmtilegt námsefni í formi leikja, en hún kennir ensku við Fjölbrautaskólann í Ármúla.  Þess vegna velti ég því fyrir mér hvort hér væri tækifæri til að spreyta sig á leikjagerð og varð strax ljóst að ættliðirnir í ættartrjánum sem Íslendingabók byggir á gætu auðveldlega staðið fyrir eitt borð í einhvers konar leik.  Þessi hugmynd heillaði meira en þær sem höfðu komið fram áður og eftir að hafa velt henni með Eddu Láru ákvað ég að útfæra spurningaleik þar sem í hverju leikjaborði kæmu fram spurningar um skyldmenni úr einum ættlið og sem fyrirmynd að framsetningu hafði ég leikinn Song Pop.

Viðmót Skyldleiksins er byggt á jQuery Mobile og efni í spurningar er unnið með köllum í forritunarviðmót (API) Íslendingabókar með JavaScript þar sem jQuery léttir undir.  Bein köll forritunarviðmótið eru ekki möguleg þegar leikurinn er hýstur sem vefsíða eða vefapp vegna öryggismála (Same origin policy), svo vefþjónninn sem hýsir leikinn tekur á móti fyrirspurnunum og handlangar þær yfir til Íslendingabókar.  Vefþjónninn er útfærður ofan á node.js og hýstur hjá Nodejitsu.  PhoneGap Build er notað til að pakka leiknum í smáforritspakka fyrir app-búðirnar – iTunes App Store og Google Play – og í því umhverfi eru öryggismál ekki til trafala og bein AJAX köll í API Íslendingabókar möguleg.  Frumkóði Skyldleiksins er hýstur í útgáfustýringu á GitHub og hann var skrifaður í Brackets ritþórnum, sem er enn á frumstigum í útfærslu og hafði sína kosti og galla, helsti kosturinn að hafa virkan yfirlestur kóðans með JsHint (JsLint er of anal) en ég notaði ekki live preview fítusinn sem ritþórinn flaggar helst þar sem ég notaði ofangreindan vefþjón fyrir samskipti við vefþjónustuna.

Nokkrum dögum fyrir skil kom Einar Jón með tillögur að grafík fyrir útlit leiksins sem heilluðu mjög og ég nýtti síðustu stundirnar í að koma grafíkinni fyrir í leiknum, sem gerði hann mun meira aðlaðandi.  Þá var komið að því að setja leikinn í loftið og upp hófst einhverskonar keppni um athygli á samfélagsmiðlum þar sem keppnisstjórn lagið mikið upp úr markaðssetningu sem yrði tekin með í mati á innleggjum í keppnina.  Þó okkur gengi ágætlega að afla áhangenda (læk-a) fyrir Skyldleikinn varð strax ljóst að við áttum ekki séns í þá sem voru öflugastir á þessum vettvangi vinsældakeppni.  Meðal annars útbjó ég kynningarmyndband sem fékk þónokkrar spilanir, Einar Jón útbjó kosningaáróðursmynd og Hlín póstaði um samfélagsnetið þvert og endilangt.  Tveir fjölmiðlar leituðu til okkar um viðtöl fyrir greinar sem birtust í Séð & Heyrt og The Reykjavik Grapevine.

Úrslitin urðu þau að Skyldleikurinn hafnaði í öðru sæti og þegar Kári Stefánsson afhenti okkur verðlaunin þótti mér vænt um að heyra hann segja að sér fyndist þetta skemmtilegasta innleggið í keppnina.  Strákarnir sem unnu voru skemmtilega duglegir að koma appinu á framfæri í erlendum fjölmiðlum sem náði hámarki þegar Jimmy Kimmel sendi frá sér skets sem grínast með sifjaspellsspillisfítusinn þeirra og merkilegt nokk skilaði þessi umfjöllun mikilli umferð inn á Skyldleikinn sem náði hámarki daginn sem grínmyndbandið gekk um netið, þá heimsóttu um sjöhundruð manns leikinn og flestir voru virkir í að spila hann.  Í framhaldinu hefur verið stöðug virkni í spilun leiksins, lengi vel nokkur hundruð einstakar heimsóknir á dag, sem hefur fjarað hægt út og þegar þetta er skrifað eru heimsóknirnar um sextíu.  Rúmlega sexþúsund hafa náð sér í leikinn í App Store og tæplega eittþúsund á Google Play.  Það hefur verið gleðilegt að heyra utan af sér að fólk hefur virkilega gaman að þessu og væri gaman að bæta eiginleikum við leikinn, til dæmis fjölbreyttari spurningum og kviku ættartré sem var upphaflega inn í myndinni að útfæra.

Það er eitthvað sérstakt við það að spila leik sem spyr spurninga um þig sjálfan.