Greinasafn fyrir flokkinn: intarwebz

Nýbökuð gosmyndbönd daglega

Get Flash to see this player.

bthj.is/eldgos

Það rættist úr veðrinu við gosstöðvarnar á Fimmvörðuhálsi seinnipartinn á afmælisdaginn en þá upp úr hádegi ákváðum við að keyra austur í Þórsmörk, Vignir mágur og þrjár dætur, Bjarni Þór og Stefán Þór en þeir tveir hossuðust í smájeppanum með mér inn ‘smörkina – drei männer im Jimny, 3. apríl og þriðja ferðin að eldsumbrotunum en áður hafði ég flogið yfir og fengið jeppafar að hraungosinu.

Á leiðinni austur voru Eyjafjöllin bólgin af óveðursskýjum en svo létti til síðdegis þegar við keyrðum inn með Markarfljóti og dásamlegt veður í Básum.  Þar fréttum við að best væri að sjá frá Útigönguhöfða svo við stefndum þangað í stað þess að leggja á Morinsheiði eins og hafði verið í plani en á stígamótunum við Réttarfell fréttum við hjá þeim sem höfðu víða ratað að af því felli væri best að sjá, svo við gengum þangað og þar var virkilega flott að sjá í nýopna sprunguna.

Svo eitt sinn þegar ég leit inn á eina af vefmyndavélunum sem er beint að gosinu datt mér í hug að heyja úr henni myndir, eina fyrir hverja mínútu, og raða saman í time-lapse myndskeið, tólf á sekúndu.  Gerði tilraun og setti nokkur myndskeið í möppuna og bar undir umsjónarmenn vefmyndavélarinnar sem leist stórvel á þetta framtak og nú er það komið í þann farveg að hvern dag er sjálfkrafa keyrt út á vefinn myndskeið úr myndum gærdagsins og heilar vikur hafa einnig verið teknar saman.

Þetta er útfært í Bash skeljarskriftum sem nýta sér forritin cURL, ImageMagick og FFmpeg og eru knúnar af cron.  Skrifturnar eru skrifaðar í Vim og ShellEd og þær má lesa á
http://volcano-webcam-to-time-lapse-video.googlecode.com