Nefna

Lokaverkefni til Baccalaureus Scientiarum gráðu í tölvunarfræði
http://hdl.handle.net/1946/15389

Vorið 2012 komumst við Edda Lára að því að við ættum von á barni.  Nánast sjálfkrafa kom upp sú hugmynd að útfæra smáforrit til að fletta og finna íslensk mannanöfn, þar sem ég er forritari og leysi verkefni með því að skrifa forrit og hef lagt áherslu á appskriftir undanfarið.  Hugmyndin er ekki beint frumleg þar sem áður hafa komið fram forrit fyrir íslensk mannanöfn eins og nafn.is, ungi.is, og Bjarni Þór vinur minn útfærði eitt slíkt óbirt ásamt því að í smáforritabúðunum má finna haug af öppum fyrir mannanöfn önnur en íslensk.  En það vantaði smáforrit með íslenskum mannanöfnum og ég tók að mér að útfæra eitt svoleiðis og kalla það Nefnu.

Einn af fyrstu valkostunum sem er staðið frammi fyrir þegar app skal skrifað er fyrir hvaða stýrikerfi það á að vera eða hvort það eigi að vera fyrir öll.  Það má ná til allra stýrikerfa með því að nota vefmálin HTML/JavaScript/CSS, eins og var gert í Skyldleiknum, en þetta nafnaapp ákvað ég að útfæra fyrir iOS stýrikerfið sérstaklega, sem iPhone, iPad og iPod touch keyra.  Ein ástæða fyrir því er, að ég hef undanfarið kynnt mér iOS forritun í Objective-C og finnst það skemmtilegt.  Önnur er að könnun sem ég lagði fyrir í tengslum við námskeiðið Frá hugmynd að veruleika benti til að meirihluti væntanlegra notenda hefði mestan áhuga á að nota appið í þessu umhverfi.  Svo næst aðeins meiri hraði og mýkt með því að útfæra sérstaklega fyrir eitt stýrikerfi.  Pæling var að útfæra appið líka með veftækni og bera saman útfærslurnar en það er enn ógert og ekki víst að ég gerið það nokkurn tíma þar sem notkunartölur benda til að nánast öllum markhópnum séð náð – kannski er fólk að kaupa sér iTæki sérstaklega til að geta notað Nefnuna.

Fyrsti verkþátturinn í útfærslu appsins var að afla gagna fyrir það.  Upplýsingar um öll samþykkt nöfn frá mannanafnanefnd eru birtar á vefnum og ég gerði skriftu til að skrapa þau í gagnagrunn.  Hagstofan birtir upplýsingar um tíðni nafna á vefnum en þar sem ég vildi ekki hamra á leitarvefformi fyrir tíðni hvers nafns sendi ég fyrirspurn um hvort ég gæti fengið upplýsingarnar á töfluformi, svipað og er gert hjá manntali og almannatryggingum Bandaríkjanna, en í svari var mér einfaldlega bent á vefsíðuna svo ég gerði líka skriftu til að sækja upplýsingarnar um tíðni þangað og læt hana ganga vel um vefinn með því að hafa hlé á milli beiðna.

Við útfærslu appsins var einfaldleikinn hafður að leiðarljósi og einn helsti eiginlegi fítusinn er að auðvelda samsetningu tvínefna, sem var útfært með því hafa einskonar skanna yfir miðjum nafnalistanum og hnappa sem segja til um hvort nöfn sem renna undir skannann færast sem fyrra eða seinna nafn á nafnspjald sem birtir samsetningarnar.  Útfærsla á þessum eiginleika reyndist nokkuð auðveld í iOS en hefði sjálfsagt verið snúnari með veftækni.  Þegar smellt er á nafn birtist skjár með merkingu og uppruna þess og Edda Lára hafði öflun þeirra upplýsinga á sinni könnu og leitaði þar víða fanga, á vefnum, í bókum og öðrum öppum.

Appið vann ég sem lokaverkefni í tölvunarfræði við Háskóla Íslands og fékk tíu fyrir.  Eftir að appið fór í loftið tók Edda Lára að sér kynningarmál sem skilaði sér í góðri umfjöllun í Pressunni og Bleikt.is, Fréttablaðinu og Vísi.is – daginn sem Bleikt fjallaði um appið, 29. maí 2013, notuðu rúmlega átta hundruð manns Nefnuna og sami fjöldi þegar Fréttablaðið og Visir.is voru með sína umfjöllun 11. júní.  Í heildina notuðu 3.258 manns appið í júní og í júlí voru þeir 1.986.  Árlega fæðast um fjögur þúsund börn á íslandi og þá að meðaltali 333 á mánuði sem gefur með mikilli einföldun rúmlega sexhundruð áhugasama foreldra á mánuði í nafnaleit –  auðvitað er þetta rúmlega níu mánaða ferli en tölurnar gefa til kynna að stór hluti mögulegs markhóps sé þegar að nota Nefnuna þó hún fáist aðeins fyrir eitt stýrikerfi.

Við tókum okkur góðan tíma í að finna nafn á piltinn sem kom í heiminn 11. desember 2012 og skírðum hann Kára þá um vorið sumardaginn fyrsta25. apríl 2013.  Þó nafnið hafi ekki beint komið úr Nefnunni og ekki sé það tvínefni þá notuðum við appið allavega til að skoða möguleikana . )

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *